,,Rauða blaðran" og ,,Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar"
Á síðustu dögum hef ég verið með nokkrar leiksýningar í gangi á götum borgarinnar. Fyrsta sýningin hét Rauða blaðran og voru tveir leikendur, ég og risa stór rauð helíum blaðra en á hinn bógin voru öllu fleiri áhorfendur. Það kostaði ekkert inn á þessa sýningu hjá mér og var hún eingöngu til að gleðja Kaupmenninga. Ég var sem sagt með Blöðruna fasta við hjólið mitt í tvo daga og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu víðförul ég gerðist á svo góðum dögum og þar af leiðandi blaðran líka, þar sem hún var jú förunautur minn í þessa tvo daga. Sýningum lauk þegar við ákváðum að leika okkur með helíumið í skólanum. Í rauninni var það mjög gott lokahóf.
Seinni sýningin hét Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar. Sú sýning kom til af því að í skólanum fengum við verkefni að búa til grímu sem eingöngu væri búin til úr rusli. Okkur voru engin takmörk sett nema að grímurnar þurftu að komast inn í skólann. Ég fór þess vegna heim og hugðist gera grímu. Gríman var í grunninn úr pappakassa sem var u.þ.b. einn rúmmeter á stærð en samanstóð einnig úr boxi utan af sýrðum rjóma, mjólkurfernu, plastpokum og flöskum og öðru áhugaverðu rusli sem á vegi mínum varð. Útkoman varð svona líka stórkostleg þó ég segi sjálf frá. Eina vandamálið var að gríman var allt of stór fyrir hjólið mitt, svo við (ég og gríman) þurftum augljóslega að notfæra okkur almenningssamgöngur bæjarins til að komast í skólan. Við byrjuðum á að fara, klukkan átta að morgni síðasta mánudags í metróið en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að maður er ekki alveg eins snar í snúningum þegar ferðast er með ferlíki á borð við þessa ágætu grímu. Sem leiddi til þess að ég endaði á að hlaupa á eftir strætó að sjálfsögðum ennþá með grímuna sem orsakaði að hún missti annað augað sem var töluvert sorglegt en orsakaði einnig að við vöktum þó nokkuð mikla athygli þá sérstaklega þegar inn í strætóinn var komið sem var þeim mun minna sorglegt. Í strætónum stóðum við saman við hliðina á mömmunum með barnavagnana, sem passaði vel því ég var í sífellu að aðgæta að grímunni minni líkt og mæðurnar aðgættu að börum sínum. Ég held ég fari að leggja svona sýningar meira fyrir mig í farmtíðinni. Alltaf fullt af áhorfendum og leikmyndin, lýsingin og settið er ókeypis, það gerist varla betra.
Það er bara búin ein sýning á Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar, vegna þess að ég hef verið að nota grímuna í skólanum en ég er hvergi hætt og hyggst halda sýningum áfram eftir fáeina daga vegna gríðarlegrar velgengni og góðra móttaka eftir frumsýninguna. Áhugasamir geta haft samband í síma 004525177855 eða sent mér línu á sigureir@gmail.com og fengið nánari upplýsingar um sýningatíma og annað.
5 Comments:
Snilld..... er hægt að panta miða hérna eða er nauðsynlegt að senda mail eða hringja? ;)
Mér langar í rauða blöðru...
Ég hef hér með tekið niður pöntunina þína Arna og blaðran þín er á leiðinni Sissó ;)
Ég var í þann veginn að skrifa eitthvað ósmekklegt og klúrt. Gott ég gerði það ekki! þá hefði nefnilega staðið hérna eitthvað ósmekklegt og klúrt. Blaðra. Gríma. Gaman.
Intressant, viss um að leikhús spekúlantar hér á landi verða áhugaverðir um þennan póstmóderníska gjörning (þ.e.a.s. seinni sýninguna), sem kemur svona líka fersk inn, nú þegar L.R setur bara upp gamlar og áðursýndar leiksýningar (t.d. Amadeus). Verst er með staðsetningu þína, Danmörk.
Skrifa ummæli
<< Home