Sigríður rasar út

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Þetta helst

Það er allt búið að vera að gerast í Kóngsins upp á síðkastið. Mamma mín er búin að vera í heimsókn síðan á fimmtudag en var að fara í dag, það er rosa gott að fá mömmu sína í heimsókn ég þori alveg að mæla með því við hvern sem er og ef þið viljið ekki fá ykkar eigin mömmu er ég viss um að mín er tilbúin að hlaupa í skarðið. Á föstdaginn var fyrsa sýningin okkar í skólanum og mæður okkar Maísólar voru báðar á staðnum og hlutu þær fyrir vikið "Mætingarverðlaun foreldra" þar sem þær komu alla leið frá Íslandi og reyndar líka af því að þær voru einu foreldrarnir, en það er auka atriði. Sýningin gekk rosa vel og allir sáttir.

Annars er það helst að frétta að ég er komin með vinnu við heimilshjálp hjá gömlu fólki og það er mjög jákvætt því það er gott og gefandi starf og svo er það svo vel borgað sem er nú ekki verra. En nú er ég farin á kóræfingu svo ég segi eins og hún Bóla gerði forðum: Hittumst heil!

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Kátt í höllinni

...og þá var kátt í höllinni, höllinni, höllinni og þá var kátt í höllinni, höllinni...
Það er vetrarfrí í Köben og það er hvorki meira né minna en heil vika. Þetta þýðir samt ekki að ég muni sitja aðgerðalaus því við erum með grímusýningu í skólanum 23. febrúar, þannig að við ætlum að æfa okkur í fríinu.
Í gær fór ég að sjá sýningu hjá skólasystur minni sem var mjög góð. Sýningin var uppi í sveit eða í Virum sem er lítill bær á Stór Kaupmannahafnarsvæðinu og það skemmtilegasta við þetta allt saman fyrir utan góða sýningu var að við fórum keyrandi á bíl, ekki í strætisvagni eða lest heldur venjulegum fólksbíl. Þetta telst sko aldeilis til tíðinda hér á Æbelögade get ég sagt ykkur því þetta hefur ekki gerst síðan ég flutti til Kaupmannahafnar.

Um síðustu helgi fór ég líka í leikhús uppi í sveit. Þá fór ég að sjá Hamlet í Gladsaxe leikhúsinu af því að dvergurinn vinkona mín sem er á öðru ári í skólanum mínum var að leika í því. Eins vandræðalegt og það er frá að segja fyrir hina leikarana þá var hún nánast það eina góða í sýningunni þó að þetta hafi átt að heita atvinnumannaleikhús. Það voru sleginn öll met í vandræðalegum slagsmálasenum og illagerðum dauðdögum. Svo við tölum nú ekki um varðmenn konungsins sem allir voru klæddir í Star Wars búninga með geimhjálma og við erum ekki að tala um fimm eða sex varðmenn heldur meira í kringum fimmtíu eða sextíu og þá er ég ekki að skrökva. Hugsið ykkur alla vinnuna eða peningana sem fóru í að finna alla þessa hjálma sem heldur hefði átt að vera varið í eitthvað allt annað og uppbyggilegra. Eða er ég kannski að misskilja þetta allt saman? er Star Wars kannski byggt á Hamlet? og í raun voru þetta ekki Star Wars hjálmar heldur Hamlet hjálmar sem síðar voru notaðir í Star Wars? Ég veit það ekki. Veist þú það?

laugardagur, febrúar 03, 2007

Í morgun vaknaði ég við það að sólin skein inn um gluggan minn. Ég verð að segja, að mér blöskraði hálfpartinn við þetta atferli blessaðrar sólarinnar því ég var engan vegin búin undir slíka atlögu að hennar hálfu svona snemma í febrúar. En þegar ég jafnaði mig þá varð ég svo glöð í bragði að ég ákvað að taka daginn og gera eitthvað tryllt.
Þess vegna ákvað ég að fara á dansnámskeið. Já ég bara fór á dansnámskeið get ég sagt ykkur.

...og nú er ég mellufær í blúsdansi, tangó og tjarlston, þannig að ef einhvern vantar skemmtiatriði í partý eða eitthvað þá er ég á lausu alla daga eftir klukkan þrjú...