Sigríður rasar út

mánudagur, nóvember 27, 2006

Tugirnir tveir

Í dag fyllti ég tvo tugi að aldri og þýðir það að ég er búin að vera ansi lengi hérna á jörðinni og orðin töluvert öldruð, en það sem meira er að þetta þýðir að bróðir minn sem er eldri en ég og hvað þá mamma mín og pabbi eru nánast orðin forn.

Í gær fór ég út að borða og einhver sagði þjóninum að ég ætti afmæli og ég laug því að ég væri fimmtán því hann trúði ekki að ég væri tvítug. Það borgar sig ekki að ljúga, ég fékk í boði hússins óáfenga frosna margarítu af því ég var svo ung. Töluvert vandræðalegt. Á föstudaginn var ég að fá mér núðlur á wagamama og var spurð um skilríki. Ég er aldrei spurð um skilríki þegar ég kaupi bjór eða þegar ég fer á skemmtistaði en þegar ég kaupi núðlur, maður þarf að vera 18 í Danmörku til að kaupa núðlur.

Í dag gerðist margt skemmtilegt ég opnaði pakka og ýmsir komu mér á óvart þar á meðal Maísól og krakkar úr bekknum mínum, þar sem þau héldu mér óvænta afmælisveislu og svo fór ég á open stage night þar sem vinkona mín lék jólasvein á stultum og kom með riiisa stóra blöðru og pakka og gaf mér og lét alla syngja fyrir mig ,,Merry christmass to you". Þetta var hrikalega góður dagur. Það er gaman að eiga afmæli.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Einhvern tíma verður allt fyrst

Í dag gerðist dálítið stór merkilegt. Ég var í skólanum, búin að búa mig undir að fara í vinnuna eftir skólan, full eftirvæntingar að mæta hundruðum mishamingjusamra Dana á leið sinni um götur borgarinnar. En hvað haldiði að gerist í hádeginu? Ég fæ þetta líka stórfurðulega símtal frá MetróExpress far sem mér er kunngjört að þau hafi lagt niður kvöldútgáfuna hjá sér og því sé ekki lengur starf fyrir mig hjá fyrirtækinu. Mér var sem sagt upp vegna niðurskurðar í fyrirtækinu. Þetta er svo sem alveg í stíl við þetta metró ævintýri mitt en ég verð að viðurkenna að ég var dálítið sorgmædd því mér var farið að finnast þetta svo gaman. Farin að gera alls konar rannsóknir á fólki og hegðun þess og um daginn sá ég gamla konu sem var með fullt af pokum hósta út úr sér gervitönnunum í poll. En ég er sem sagt orðin atvinnulaus og í tilefni af því fórum við Maísól og fengum okkur kaffi á Baresso, það var gott.

...

Samkvæmt mínum útreikningum er skó nýting hér í Danmörku mun betri en til dæmis á Íslandi. Þetta hlýst af því að Danir nota skóna sína eiginlega ekki neitt því allt er farið á hjólum. Í þessu hlýtur að felast mikill sparnarður, eða hvað? Ég veit það ekki, maður hlýtur alla vega að spyrja sig að því...

mánudagur, nóvember 13, 2006

Dirla dorla durla derla

Fór á geðveika tónleika í gær með Sufjen Stevens. Þeir voru allir alveg ótrúlega fallegir. Hann henti uppblásnum súpermönnum og jólasveinum út í sal, það var gaman.

Í skólanum er gaman, við erum öll að leika saman og erum í þessari viku á grímugerðar námskeiði, það er erfitt og fræðandi en um fram allt mjög skemmtilegt.

Fyrir áhugasama þá gengur mér mjög vel á götuhornum borgarinnar að ota blautum og köldum dagblaða ræflum að gangandi vegfarendum. Ég sóma mér svo vel í appelsínugula júníforminu að ég hef íhugað af fullri alvöru að gera þennan galla að mínum daglegu klæðum. Ég er á hraðferð upp metorðastigan innan fyrirtækisins og verð komin á Ráðhústorgið áður en ég veit af.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Heimsins lengsta grín

Í dag byrjaði ég á lengsta gríni sem ég hef gert. Tvær vinkonur mínar úr skólanum hafa verið að deila með sér einni vinnu og skiptast þær því á að mæta 2 til 3 daga í viku. Önnur þeirra þurti að hætta og mun ég leysa hana af núna í nóvember. Grínið er að þetta er engin venjuleg vinna. Fáránlegasta og vanþakklátasta vinna sem ykkur dettur í hug tvöfölduð er vinnan mín. Ég er sem sagt að fara að vinna hjá MetroExpress að dreifa dagblöðum á Hovedbane og ekki nóg með það heldur fékk ég einkennisklæðnað í dag og það er hvorki meira né minna en úlpa sem er sú appelsínugulasta flík sem ég hef á ævinni séð og vesti í stíl, sem er með svona alls kyns takkí auglýsingum til að fullkomna lúkkið. Ég hyggst nota þetta tækifæri til þess að æfa hinar og þessar æfingar úr skólanum á gangandi vegfarendum. Ég er viss um að ég verð búin að skapa mér sess sem hressa metró konan innan viku, vitiði bara til.

Allt fyrir grínið...

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Veturinn er kominn

Í morgun þegar ég vaknaði ákvað ég að fara fram úr og fara í skólan, ákvörðun sem ég tek nánast á hverjum einasta morgni. Nema á laugardögum og sunnudögum, þá tek ég mjög meðvitaða ákvörðun um að fara ekki í skólan. En þegar ég kom út úr fallegu íbúðinni minni og út á götuna var grenjandi rigning en ég lét það ekki á mig fá og hjólaði ótrauð af stað, þegar ég var um það bil hálfnum var rigningin búin að breytast í snjó eða haglél öllu heldur og ég var hætt að finna fyrir líkama mínum frá lærum um niður. Einnig var tilfinningin í andlitinu þó nokkuð farin að veikjast. En ég er búin að fá tilfinninguna aftur núna og er að búa mig undir góða kvöldstund við grímugerð með Maísól. Við gerðum gifsmót af andlitunum á okkur á mánudaginn, það var fyndið.