Sigríður rasar út

föstudagur, desember 29, 2006

Jólaljóð

Þegar líða fer að jólum
sjást kellingar í kjólum
og kallarnir á hjólum
út um allt að leita að gjöf.

Þeir í allar búðirnar æða
milli hóla og milli hæða
til reyna eitthvað að græða
á útsölunum út´ um allt.

Kátir sveinarnir kom´ í bæinn
yfir fjöllinn eða sæinn
bjóða öllum glaðan hæginn
og gleði og friðar jól.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Ísland fagra Ísland

Jæja þá er ég bara búin að pakka og er á förum úr höllinni okkar hérna á Howitsvej, ég er heimilislaus í tvo daga og er að hugsa um að finna mér bara gott horn á Istegade og taka stöðuna þaðan... eða nei annars, kannski fæ ég bara að gista hjá einhverjum... eða hvað? En á morgun er síðasti dagurinn í skólanum fyrir jólafrí og annað kvöld er julefrokost, það verður gaman. En á fimmtudaginn gerist dálítið alveg ótrúlega skemmtilegt, fyrir mig og ykkur og gamla landið Ísa því þá kem ég heim. Þið getið því byrjað að ryksuga dregilinn og opna kampavínið því ég er á leiðinni.

Sjáumst þá.

föstudagur, desember 15, 2006

Leiðrétting

Mig langar bara aðeins að leiðrétta smá misskilning sem varð út af skólastjóra blogginu. Að sjálfsögðu er Ole bara næst uppáhalds skólastjórinn minn. Hann kemst ekki með tærnar þar sem móðir mín er með hælana. Hún er ekki bara frábær skólastjóri heldur líka uppáhalds mamman mín.

Þá er ég búin að leiðrétta þann misskilning...

Má ég þá núna koma heim um jólin mamma mín?

mánudagur, desember 11, 2006

Skólastjórinn minn

Þetta blogg er um skólastjórann minn hann Ole:

Hann skólastjórinn minn hann Ole, hann er sko engin venjulegur maður. Þó mamma mín og afi minn og bróðir mömmu og bara restin af fjölskyldunni minni séu skólastjórar þá er þessi uppáhalds skólastjórinn minn. Hann er 63 ára og stendur á haus og labbar á höndum jafn áreynslulítið og aðrir drekka vatn. Við Maísól köllum Ole aldrei annað en Hann. Hann er ótrúlega góður kennari, mér skilst að hann sé frábær trúður og ég get ímyndað mér að hann sé ákaflega hressandi afi. Um daginn í hádegishléinu í skólanum, skrapp Ole eitthvað frá og kom nokkrum mínútum seinna með jólatré á öxlinni. Þetta var svo fallegt að ég fór næstum því að gráta af gleði. Svo setti hann seríur á tréð og núna er alltaf jólalegt í skólanum. Það er gaman.

fimmtudagur, desember 07, 2006

,,Rauða blaðran" og ,,Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar"

Á síðustu dögum hef ég verið með nokkrar leiksýningar í gangi á götum borgarinnar. Fyrsta sýningin hét Rauða blaðran og voru tveir leikendur, ég og risa stór rauð helíum blaðra en á hinn bógin voru öllu fleiri áhorfendur. Það kostaði ekkert inn á þessa sýningu hjá mér og var hún eingöngu til að gleðja Kaupmenninga. Ég var sem sagt með Blöðruna fasta við hjólið mitt í tvo daga og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu víðförul ég gerðist á svo góðum dögum og þar af leiðandi blaðran líka, þar sem hún var jú förunautur minn í þessa tvo daga. Sýningum lauk þegar við ákváðum að leika okkur með helíumið í skólanum. Í rauninni var það mjög gott lokahóf.

Seinni sýningin hét Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar. Sú sýning kom til af því að í skólanum fengum við verkefni að búa til grímu sem eingöngu væri búin til úr rusli. Okkur voru engin takmörk sett nema að grímurnar þurftu að komast inn í skólann. Ég fór þess vegna heim og hugðist gera grímu. Gríman var í grunninn úr pappakassa sem var u.þ.b. einn rúmmeter á stærð en samanstóð einnig úr boxi utan af sýrðum rjóma, mjólkurfernu, plastpokum og flöskum og öðru áhugaverðu rusli sem á vegi mínum varð. Útkoman varð svona líka stórkostleg þó ég segi sjálf frá. Eina vandamálið var að gríman var allt of stór fyrir hjólið mitt, svo við (ég og gríman) þurftum augljóslega að notfæra okkur almenningssamgöngur bæjarins til að komast í skólan. Við byrjuðum á að fara, klukkan átta að morgni síðasta mánudags í metróið en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að maður er ekki alveg eins snar í snúningum þegar ferðast er með ferlíki á borð við þessa ágætu grímu. Sem leiddi til þess að ég endaði á að hlaupa á eftir strætó að sjálfsögðum ennþá með grímuna sem orsakaði að hún missti annað augað sem var töluvert sorglegt en orsakaði einnig að við vöktum þó nokkuð mikla athygli þá sérstaklega þegar inn í strætóinn var komið sem var þeim mun minna sorglegt. Í strætónum stóðum við saman við hliðina á mömmunum með barnavagnana, sem passaði vel því ég var í sífellu að aðgæta að grímunni minni líkt og mæðurnar aðgættu að börum sínum. Ég held ég fari að leggja svona sýningar meira fyrir mig í farmtíðinni. Alltaf fullt af áhorfendum og leikmyndin, lýsingin og settið er ókeypis, það gerist varla betra.

Það er bara búin ein sýning á Gríman og ég - ferðalag ungrar stúlku og ruslagrímunnar hennar í almenningssamgangnakerfi Kaupmannahafnar, vegna þess að ég hef verið að nota grímuna í skólanum en ég er hvergi hætt og hyggst halda sýningum áfram eftir fáeina daga vegna gríðarlegrar velgengni og góðra móttaka eftir frumsýninguna. Áhugasamir geta haft samband í síma 004525177855 eða sent mér línu á sigureir@gmail.com og fengið nánari upplýsingar um sýningatíma og annað.