Sigríður rasar út

föstudagur, júní 22, 2007

Líf mitt...

Nú hef ég legið í bloggdvala of lengi og hef ákveðið að hripa hérna niður nokkrar línur um líf mitt. Ég er sum sé snúin til baka á klakan og er búsett í Reykjavíkinni góðu og er að vinna á leikskóla, svona alla vega að nafninu til. Mest er ég þó að leika mér. T.d á morgun legg ég land undir fót og fer til Póllands á listahátið og svo fer ég að sjálfsögðu austur í júlí á Lunga. Þannig að ég er minnst að vinna og búa í Reykjavík. Ég er syngjandi kát og allt í lukkunnar velstandi. Þetta var það helsta í örfáum orðum
Leikskólasaga:
"Hvað heita afkvæmi geita?" spyr leikskólakennarinn og barnið svarar að sjálfsögðu um hæl, "Geitungar". Þau eru svo gáfuð og skemmtileg þessar elskur og lógísk. Það er fullorðna fólkið sem er súrríalískt.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Guðný

Þar sem að mér finnst ég ekki hafa frá neinu að segja þá hef ég ákveðið að kvóta í Guðnýju eða Cloony eins og ég kýs að kalla hana, hún er skemmtileg.

"Long Island Icete. Ógeðslega gott. Ef maður segist vera sykursjúkur"
-Cloony-

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Sams Bar

Það jafnast ekkert á við góða stund á Sams bar þriðjudagskvöldi með Þremenningasambandinu. Ég elska Maísól og Kakó.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Gilli, gilli, gilli!

Nú hef ég búið á Æbelögade í næstum 3 mánuði og er það með eindæmum huggulegt. En á þessum 3 mánuðum hef ég uppgötvað að fólkið í húsinu mínu er ákaflega umburðalynt. Á hæðinni fyrir neðan okkur býr neflilega ungur drengur sem heitir Stígur, hann er mikil félagsvera og hefur því mikla þörf fyrir að halda gilli (teiti, partý, veisla, fest...). Hann lætur sér ekki næga að halda gilli öðru hverju eins og við hin, heldur heldur hann að minnsta kosti tvö gilli í hverri viku. Gillin byrja venjulega svona um 2100 leitið og standa til 0200 og svo byrjar eftirgillið svona um 0500 leitið og stendur yfirleitt fram að kvöldmat og svo endurtekur sagan sig. Þetta er alveg í himnalagi fyrir okkur og það virðist gilda um restina af nágrönnunum líka. Þetta skildum við ekki alveg því það eru jú ekki allir jafn ferskir og við Maísól, en um helgina komumst við að því hvaða taktík hann beitir til að halda öllum góðum.

Það var neflilega þannig að þegar ég og Maísól komum heim á föstudagskvöldið þá var að sjálfsögðu partý hjá Stíg og við ákváðum í einhverju sprelli að dingla hjá honum. Það tók hann ekki langan tíma eftir að við höfðum kynnt okkur sem nágranna hans að bjóða okkur inn og gefa okkur dryk, því að hann hélt sjáfsögðu að við værum komnar til að kvarta. Hann var svo gestrisin og málgefin að þó svo að við hefðum ætlað okkur að kvarta hefðum við alls ekki fengið tækifæri til þess vegna allra almennileg heitanna. Samstundis skildi ég af hverju öllum finnst þetta partýhald sjálfsagt.

Æi það eru allir eitthvað svo ligeglad hérna...

föstudagur, mars 02, 2007

Túdú

Túdú listi morgundagsins:

1. Vakna klukkan sex og massa fyrsta daginn í vinnunni - það er gott þá fæ ég péning
2. Leika í tónlistarmyndbandi fyrir sænska rokkhljómsveit- það er fyndið
3. Skólapartý hérna á Æbelögade - það verður fabulous og útbíað gaman

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Þetta helst

Það er allt búið að vera að gerast í Kóngsins upp á síðkastið. Mamma mín er búin að vera í heimsókn síðan á fimmtudag en var að fara í dag, það er rosa gott að fá mömmu sína í heimsókn ég þori alveg að mæla með því við hvern sem er og ef þið viljið ekki fá ykkar eigin mömmu er ég viss um að mín er tilbúin að hlaupa í skarðið. Á föstdaginn var fyrsa sýningin okkar í skólanum og mæður okkar Maísólar voru báðar á staðnum og hlutu þær fyrir vikið "Mætingarverðlaun foreldra" þar sem þær komu alla leið frá Íslandi og reyndar líka af því að þær voru einu foreldrarnir, en það er auka atriði. Sýningin gekk rosa vel og allir sáttir.

Annars er það helst að frétta að ég er komin með vinnu við heimilshjálp hjá gömlu fólki og það er mjög jákvætt því það er gott og gefandi starf og svo er það svo vel borgað sem er nú ekki verra. En nú er ég farin á kóræfingu svo ég segi eins og hún Bóla gerði forðum: Hittumst heil!

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Kátt í höllinni

...og þá var kátt í höllinni, höllinni, höllinni og þá var kátt í höllinni, höllinni...
Það er vetrarfrí í Köben og það er hvorki meira né minna en heil vika. Þetta þýðir samt ekki að ég muni sitja aðgerðalaus því við erum með grímusýningu í skólanum 23. febrúar, þannig að við ætlum að æfa okkur í fríinu.
Í gær fór ég að sjá sýningu hjá skólasystur minni sem var mjög góð. Sýningin var uppi í sveit eða í Virum sem er lítill bær á Stór Kaupmannahafnarsvæðinu og það skemmtilegasta við þetta allt saman fyrir utan góða sýningu var að við fórum keyrandi á bíl, ekki í strætisvagni eða lest heldur venjulegum fólksbíl. Þetta telst sko aldeilis til tíðinda hér á Æbelögade get ég sagt ykkur því þetta hefur ekki gerst síðan ég flutti til Kaupmannahafnar.

Um síðustu helgi fór ég líka í leikhús uppi í sveit. Þá fór ég að sjá Hamlet í Gladsaxe leikhúsinu af því að dvergurinn vinkona mín sem er á öðru ári í skólanum mínum var að leika í því. Eins vandræðalegt og það er frá að segja fyrir hina leikarana þá var hún nánast það eina góða í sýningunni þó að þetta hafi átt að heita atvinnumannaleikhús. Það voru sleginn öll met í vandræðalegum slagsmálasenum og illagerðum dauðdögum. Svo við tölum nú ekki um varðmenn konungsins sem allir voru klæddir í Star Wars búninga með geimhjálma og við erum ekki að tala um fimm eða sex varðmenn heldur meira í kringum fimmtíu eða sextíu og þá er ég ekki að skrökva. Hugsið ykkur alla vinnuna eða peningana sem fóru í að finna alla þessa hjálma sem heldur hefði átt að vera varið í eitthvað allt annað og uppbyggilegra. Eða er ég kannski að misskilja þetta allt saman? er Star Wars kannski byggt á Hamlet? og í raun voru þetta ekki Star Wars hjálmar heldur Hamlet hjálmar sem síðar voru notaðir í Star Wars? Ég veit það ekki. Veist þú það?